Fréttir

Bóndadagur 2024

Nemendur og starfsfólk Egilsstaðaskóla fögnuðu upphafi þorra í dag, á bóndadag. Margir komu í þjóðlegum fatnaði og í mötuneytinu var boðið upp á hangikjöt, nýja sviðasultu, súra punga og hákarl ásamt fleiru. Krakkarnir voru dugleg að borða og smakka þennan mat, sem er nú sjaldan á borðum. Starfsfólk skólans bjó sig upp á í tilefni dagsins og það var skemmtileg tilbreyting.
Lesa meira

Heimsóknir leikskólabarna

Á hverjum vetri koma börn úr elsta árgangi leikskólans Tjarnarlands í heimsóknir í Egilsstaðaskóla. Markmiðið er að börnin fái innsýn í ákveðna þætti í skólastarfinu smám saman og aðlagist þannig tilhugsuninni um að byrja í 1. bekk. Í dag sótti hluti árgangsins tíma í list- og verkgreinum en áður hafa þau komið á bókasafnið og eldri nemendur hafa lesið fyrir þau. Eftir er heimsókn í íþróttatíma og í vor koma þau hluta úr degi í skólann og sjá þá kennslustofurnar sem þau koma til með að vera í.
Lesa meira

Símalaus skóli

Frá áramótum er Egilsstaðaskóli símalaus skóli. Með því er átt við að nemendur mega ekki vera með síma uppivið, hvorki í kennslustundum eða í frímínútum og matartímum. Þetta á við nemendur í 7. - 10. bekk. Engar breytingar urðu á reglum fyrir nemendur í 1. - 6. bekk sem ekki hafa mátt koma með síma/snjalltæki í skólann. Fyrstu dagarnir hafa gengið mjög vel og nemendur hafa nánast undantekningarlaust tekið breytingunni vel. Bókasafnið verður nú opið í fríminútum en þar er hægt að tefla, spila og lesa. Í opnum rýmum verða í boði spil, borðtennis og fleira. Sem fyrr geta nemendur farið út í frímínútum og nýtt aðstöðu úti. Nemendaráð mun sjá um að sýndir verði þættir í fyrirlestrasal einhverja daga og kennarar ætla að skipta með sér að kenna á spil og aðstoða við prjón og hekl svo eitthvað sé nefnt. Vikurnar til 2. febrúar eru hugsaðar sem aðlögunartímabil en þann tíma verða ekki viðurlög ef nemendur fara ekki eftir reglunum. Boðið verður uppá að skila símum í lítil box, sem kennarar koma fyrir í læstri hirslu. Símarnir verða svo afhentir í lok skóladags. Í byrjun febrúar verður farið yfir það sem vel hefur gengið og hvað má bæta.
Lesa meira

Skólastarf á nýju ári

Starfsfólk Egilsstaðaskóla óskar nemendum og foreldrum / forráðamönnum gleðilegs árs og þakkar fyrir samskiptin á liðnu ári. Skólastarf hefst aftur fimmtudaginn 4. janúar.
Lesa meira

Jólakveðja

Starfsfólk Egilsstaðaskóla óskar nemendum, foreldrum og öðrum velunnurum skólans gleðilegra jóla og gæfuríks árs. Nemendur mæta aftur í skólann 4. janúar. Skrifstofa skólans verður lokuð frá 21. des til 3. jan. Miðvikudaginn 3. janúar er starfsdagur í skólanum og Frístund lokuð. Skólastarf nemenda hefst samkvæmt stundaskrá á nýju ári fimmtudaginn 4. janúar.
Lesa meira

Jólatré í stofu stendur

Undirbúningur fyrir jólaskemmtanir var í fullum gangi í dag; Jólatréð var tekið inn og þurfti að kalla marga til því tréð er stórt og þungt. Nemendaráð sér svo um að skreyta tréð og salinn fyrir jólaskemmtun fyrir 7. - 10. bekk er í kvöld. Að henni lokinni eru nemendur í þeim árgöngum komnir í jólafrí. Á morgun verður dansað í kringum tréð þegar nemendur í 1. - 6. bekk mæta sinn síðasta skóladag fyrir jólafrí.
Lesa meira

Fiðrildafangarar í 6. bekk

Krakkarnir í sjötta bekk héldu sýningu á fiðrildum, sem þau höfðu búið til í textíl. Fiðrildin eru litrík og fjölbreytileg eins og vera ber og þau tóku sig vel út í vetrarbirtunni.
Lesa meira

Jólapeysu-húfu-sokka dagur

Það var litríkur hópur nemenda og starfsfólks sem mætti í skólann í morgun. Jólapeysur, jólahúfur, jólasokkar og alls konar jólaskraut hafði verið dregið fram og því skartað í tilefni af því að nú styttist mjög til jóla.
Lesa meira

Fernuflug

Í haust kallaði Mjólkursamsalan eftir textum frá nemendum í elstu bekkjum grunnskóla. Frá árinu 1994 hefur MS nýtt fjölbreyttar leiðir til að efla móðurmálið og hafa stærstu og sýnilegustu verkefnin verið íslenskuátök á mjólkurfernum. Yfir 1200 textar bárust frá nemendum víða af landinum. Af 48 textum, sem munu birtast á mjólkurfernum á næstunni, eiga nemendur úr Egilsstaðaskóla sex. Hér fyrir neðan eru myndir af textunum eftir þær Mariu Önnu, Rakel, Kötlu Lind, Sólveigu Ásu, Sól og Karen Töru. Við óskum þeim innilega til hamingju með frábæra texta og hlökkum til að fylgjast með mjólkurfernunum á næstunni.
Lesa meira

7. desember

Í Egilsstaðaskóla eru 420 nemendur og hátt í 100 starfsmenn. Það er margt í gangi á venjulegum degi, eins og í dag þriðjudaginn 7. desember. Alls staðar er verið að vinna að einhverju ákveðnu og hver manneskja hefur sitt hlutverk. Það er litað, bakað, hlustað, skrifað, saumað, prjónað, þvegið, smíðað, eldað, talað, hlegið og gantast. Í fyrirlestrasal er æfð endurlífgun. Meðfylgjandi eru myndir teknar í húsinu í dag, sem sýna hluta þess sem var í gangi á stórum vinnustað. Ró yfir húsinu og jólaandinn farinn að setja svip sinn á húsnæðið og verkefnin sem voru í vinnslu.
Lesa meira